Viðgerðarskemma nú opin fyrir bókanir

Kæru Snarfarafélagar.

Það er okkur stjórnarmönnum mikil ánægja að tilkynna opnun á nýrri viðgerðarskemmu félagsins.

Bókunarsíðan fyrir skemmuna hefur verið sett í loftið enda skemmunnar verið beðið með eftirvæntingu. Við biðjum þó félagsmenn að sína þolinmæði þar sem enn á eftir að setja upp nokkra hluti, s.s. tengja rennandi vatn.

Smelltu hér til að panta tíma

ATH: Aðeins er hægt að bóka skemmuna gegnum vefinn. Vinsamlegast leitið til næsta manns ef þið þurfið aðstoð við að bóka skemmuna.

Aðstöðu er hægt að panta hér gegnum heimasíðu Snarfara.

Félagsmenn eru kunnugir bókunarkerfinu en það er sama kerfi og notað er fyrir næturvaktir.

Snarfari

Aðastaðan leigist í 24 klst. í senn og hver leigutími hefst kl. 18:00 og endar kl. 18:00.

Verð: 15.000 kr. per sólarhring.

Hægt er að taka skemmuna á leigu í einn dag eða nokkra daga.

Ætli félagsmaður að leigja aðstöðuna fleiri en einn dag þá þarf að bóka inn alla dagana, einn dag í einu. (Byrja upp á nýtt fyrir hvern dag)

Snarfari

Skemman er hugsuð til almennra viðgerða og að ditta að bátum.
Allur háþrýstiþvottur fer áfram fram utandyra en svo má færa báta inn að þvotti loknum.

Málningarvinna með sprautu er stranglega bönnuð, nota skal pensla eða rúllur ef á að mála og verja gólf með dúk.

Skemmunni fylgir í raun ekkert nema það að þetta er góð, upphituð inniaðstaða með góðri vinnulýsingu. Engin verkfæri fylgja aðstöðunni svo þurfa félagsmenn sjálfir að koma með sín verkfæri, vinnupalla, rafmagnskapla og það sem þarf til í hverja aðgerð fyrir sig.

Stjórn útilokar ekki að bæta við hlaupaketti og talíu þegar fram líða stundir og einnig loftpressu - en til að byrja með fylgir ekkert með.

Bátar, verkfæri og önnur verðmæti eru alfarið á ábyrgð leigutaka skemmunnar.

Þar til annað er ákveðið verður þjónusta traktorsins innifalin í leiguverði aðstöðunnar, þ.e.a.s. tilfærsla á báti af plani inn í skemmu og aftur út á plan. Að færa bát t.d. úr skemmu beint í sjósetningu rukkast skv. verðskrá.

Leigutaki þarf að setja sig í samband við ökumenn traktors og finna tíma sem hentar báðum aðilum.

Þeir sem eiga kost á því að færa sína báta sjálfir á einkabíl með krók eru hvattir til að gera það.


Aðgengi að skemmunni er eingöngu fyrir þá sem hafa hana á leigu þann sólarhring.
Félagsmenn hafa ekki leyfi til að fara í skemmuna nema bóka hana.

Við leigu fær leigutaki sendan tölvupóst með númeri fyrir lyklabox.

Leigutakar eru vinsamlegast beðnir að skila lykli alltaf í lyklabox þegar farið er af svæðinu, jafnvel þó að um stutta sendiferð, s.s. hádegismat, sé að ræða, öryggisins vegna.

Í lok leigutíma skilur leigutaki húsinu af sér í góðu ástandi, hreinu og fínu og á réttum tíma, fyrir miðnætti og setur lykil í lyklabox.

Stranglega bannað er að bóka aðstöðuna og koma með bát sem er ekki skráður í félagið.

Vonandi kemur þessi aðstaða sér að góðum notum.
Allar ábendingar eru vel þegnar á netfangið snarfari@snarfari.is eða til næsta stjórnarmanns.


Stutt samantekt:

  • Viðgerðarskemman er nú opin en verður fullbúin kringum mánaðarmót
  • Opið fyrir bókanir á www.snarfari.is/skemma
  • Verð: 15.000 kr. per sólarhring
  • Leiga hefst kl. 18:00 og endar kl. 18:00
  • Númer fyrir lyklabox kemur 2 klukkustundum fyrir leigutíma
  • Lykill skal alltaf geymdur í lyklaboxi
  • Engin verkfæri fylgja
  • Bannað að sprautumála
  • Gangið vel um og skilið húsinu á réttum tíma
  • Ábendingar skili sér til stjórnar á snarfari@snarfari.is

 

Kveðja frá stjórn.