Stórstreymi og hvasst á morgun

Kæru Snarfarafélagar, sjá skilaboð frá Landhelgisgæslunni:

Ekki hefur farið framhjá neinum að fyrsta haustlægðin nálgast landið og hefur Veðurstofan gefið út viðvaranir vegna hennar, en veðurspár gera ráð fyrir hvassviðri af suðaustri í fyrstu og síðan suðvestri.

Landhelgisgæslan vekur á því athygli að á morgun, föstudaginn 1. september, er stórstreymt og er um að ræða hæsta útreiknaða stórstreymisflóð ársins, en fyrir Reykjavík reiknast flóðhæðin 4,6 metrar.

Um helgina verður því há sjávarstaða og má gera ráð fyrir að samhliða lægðinni verði nokkuð þung alda og áhlaðandi með suður- og vesturströndinni, sem gerir sjávarhæð mögulega hærri en útreikningar gefa til kynna.

Þá er ágætt að hafa í huga að á þessum árstíma eru síðdegisflóðin hærri en morgunflóðin.
Landhelgisgæslan hvetur til aðgæslu við sjávarsíðuna og að hugað verði að skipum og bátum í höfnum.