Fréttabréf 27. október 2025

Kæru Snarfarafélagar.

Öryggishlið komið í gagnið

Það er okkur ánægjulegt að tilkynna að nýtt aðgangshlið hefur loksins verið tekið í notkun eftir langt og strangt ferli.
Röð atvika hefur gert það að verkum að ferlið var langt - en með aðstoð góðra sérfræðinga, innan raða Snarfara og utan, er hliðið loks komið í fulla virkni.

Allir félagar í Snarfara eiga að vera skráðir á hliðið og er sama númer á hliðinu og var á gamla hliðinu.


Vetrarlokun tekin gildi

Vetrarlokun hafnar tók formlega gildi þann 15. október sl.
Þeir sem ætla sér að hafa báta sína niðri í vetur fá aðstöðu á A bryggju og bátar af B og C bryggjum verða færðir yfir á A bryggju eftir fyrirmælum hafnarstjóra.

Vinsamlegast ekki færa báta ykkar fyrr en ykkur hefur verið úthlutað nýju stæði.

SKRÁ MIG Á VETRARSTÆÐI

Allir bátar sem enn eru í höfninni þann 1. nóvember munu fá senda rukkun um vetrargjald og einnig úthlutað nýju stæði á A bryggju.

Hörður Már hafnarstjóri hefur umsjón með tilfærslu yfir á vetrarstæði.

Stjórn skorar á þá bátaeigendur sem ekki ætli sér að greiða vetrargjald að drífa í að koma bátum sínum á land.


Snjókoma framundan

Fyrsta alvöru snjókoma vetrarins hefst í kvöld og skv. veðurspá má búast við því að snjói í 24 klst. stanslaust.
Stjórn hvetur félagsmenn að huga vel að bátum sínum og búnaði eins og þarf.

Ennfremur hvetur stjórn félagsmenn að taka báta sína upp í dag, mánudag og ganga frá öllum lausum endum áður en fer að snjóa.